Hóptímar
Ég býð reglulega upp á hóptíma á Íslandi, bæði kakó nidra, kakóró, tunglhyllingu og kakóathafnir. Allir tímarnir miða að því að ná djúpri slökun og tengingu inn á við í gegnum tónheilun, öndunaræfingar og hugleiðslu með aðstoð „ceremonial“ kakóbolla. Hér fyrir neðan getur þú lesið um hvern tíma og valið svo það sem hentar þér best. Takmarkað pláss er í boði á alla viðburði og því nauðsynlegt að bóka fyrirfram í gegnum síðuna eða senda tölvupóst á kamilla@kako.is. Þegar þú hefur gengið frá greiðslu fer nafnið þitt á listann og þú þarft ekki að prenta neitt út. Ef þú lendir í vandræðum í greiðsluferlinu sendu endilega póst á kamilla@kako.is en það lenda sumir í því. Tímarnir fara fram í Ljósheimum, Borgartúni 3, 3. hæð.
Nánar um tímana:
Kakó nidra: 60 mínútna tími þar sem við hlöðum okkur eftir vinnuvikuna með yoga nidra, svokölluðum jógískum svefn og tónheilun. Með iðkun yoga nidra er hægt að ná mjög djúpri slökun með fullri vitund, á dásamlegum stað á milli svefns og vöku þar sem líkaminn hvílist á meðan undirmeðvitundin er leidd í djúpt slökunarástand handan skilningarvitanna þar sem engin streita býr og fullkomin eining ríkir. Yoga nidra getur losað um líkamlega, andlega og tilfinningalega spennu en einn klukkutími af yoga nidra veitir hvíld á við fjögurra tíma svefn. Yoga nidra hefur meðal annars reynst vel í að draga úr streitu og bæta svefn. Kakó nidra kostar 4000 krónur.
Kakóathöfn: Tveggja og hálfs tíma athöfn og ferðalag inn að rótum í gegnum tónheilun, virkjun þinnar eigin raddar og djúpa slökun. Skynjaðu og skildu það sem orð ná ekki yfir. Kristalalkemíuskálar, gong og fleiri hljóðgjafar eru okkur til aðstoðar sem og hjartaopnandi og heilagt kakó. Athöfnin kostar 6000 krónur.
KakóRó og tunglhylling: 90 mínútna tími þar sem við róum líkama, huga og sál með öndunaræfingum, hljóðbaði og djúpri slökun. Kakóbolli og hljómar kristalalkemíuskála, gongsins og fleiri hljóðgjafa hjálpa til við að auka ró og tengingu inn á við. KakóRó og tunglhylling kostar 5000 krónur.
Kakóið sem við drekkum frá regnskógum Guatemala er svokallað “ceremonial grade cacao” og sannkölluð ofurfæða. Kakó er blóðflæðisaukandi, hefur jákvæð áhrif á úthald og orku, minnkar bólgur, ýtir undir framleiðslu á gleðiboðefninu serótónín, lækkar streituhormónið kortisól og örvar vellíðunarstöðvar í heilanum og framleiðslu á endorfíni. Hér má lesa nánar um kakó.